Lifandi velsæld 

Undanfarin ár hefur það færst í vöxt við mat á árangri opinberra aðila jafnt sem fyrirtækja að litið sé til fleiri þátta en fjárhagslegrar stöðu. Kjörnir fulltrúar hafa á eigin skinni fundið fyrir takmörkun fjárhagsmælikvarða til að lýsa stöðu íbúa þeirra samfélaga sem þau starfa fyrir. Þá hafa fyrirtæki í auknum mæli tamið sér að líta til samfélagslegra þátta og eru sífellt auknar alþjóðlegar kröfur um slíkt. Fjöldi rannsókna styðja þá þróun fyrirtækja að huga að ófjárhagslegum þáttum og sýna fram á jákvæð áhrif þess á arðsemi til lengri tíma. Til að varða veginn hefur þörf fyrir breiðari linsu við mat á árangri verið svarað með þróun margvíslegra mælikvarðar og vísa. Má í því samhengi nefna Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, lýðheilsuvísa Embættis landlæknis og velsældarvísa Hagstofu Íslands og forsætisráðuneytis. Nú þegar ótal mælikvarðar eru til sem varpa ljósi á stöðu samfélagsins vaknar upp sú spurning hvort þeir séu nóg til að tryggja velsæld. 

Tölfræðileg velsæld 

Þrátt fyrir teikn um breytingar getum við flest verið sammála um að fjárhagsupplýsingar eru enn ríkjandi þáttur þegar kemur að opinberri umræðu um áherslur, stefnumörkun og árangur. Umræða um stjórnvöld snýr gjarnan að því hversu margir milljarðar fara í ákveðin verkefni og þegar kemur að fyrirtækjum er hagnaður og hagræðing vinsæl nálgun. Lítið fer fyrir umræðu um áhrif fjárhagslegra ákvarðana á hag og líðan almennings og þaðan af síður að velsældarmælingar séu grundvöllur ákvarðanatöku.  

Það er að mörgu leyti skiljanlegt þ.s. auðveldara er að segja frá tölfræðilegum staðreyndum og einstaka ákvörðunum en að greina og setja þessar ákvarðanir í samhengi við stöðu einstakra hópa. Fjárhagsupplýsingar og aðrir tölfræðilegir mælikvarðar eru mikilvægir og veita okkur ákveðna innsýn í stöðu samfélagsins. Það er hins vegar lykilatriði að við áttum okkur á takmörkunum þeirra. 

Ef einstaklingur svarar í könnun að hann nái ekki endum saman en tölfræðilegur mælikvarði úr gagnagrunnum sýnir annað. Eigum við þá ekki að trúa einstaklingnum? Skiptir sú upplifun að viðkomandi hafi ekki möguleika á að verða sér úti um helstu nauðsynjar engu máli, því að ákveðin tölfræðiformúla segir okkur að hann eigi að standa betur?  

Til þess að tryggja samræmi er mikilvægt að fylgjast með fjárhagsmælikvörðum samhliða þróun bættra samfélagsmælikvarða. Í öllum þessum mælingum og tölfræði er þó lykilatriði og algerlega nauðsynlegt að eiga einnig samtal við fólk og fulltrúa ólíkra hópa og fá þar með raunveruleg sjónarhorn að borðinu, bæði sem mótvægi en einnig aukna dýpt í tölfræðilegar breytur. Mælikvarðarnir og samtalið skapa heildarmyndina, ekki annað hvort eða.  

Breytileg velsæld 

Árið 2018 var skipaður starfshópur stjórnvalda um þróun mælikvarða um hagsæld og lífsgæði og skilaði hópurinn skýrslu með tillögum ári síðar. Það var framför að fá slíka skýrslu, þar sem litið var sérstaklega til íslensks samfélags. Samfélagið tekur hins vegar stöðugum breytingum og þurfum við að vera á tánum varðandi þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir hverju sinni. Má í því samhengi nefna að á síðastliðnum 10 árum hefur fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi þrefaldast. Þrátt fyrir að stutt sé frá þróun innlendra velsældarvísa tekur enginn þeirra til inngildingar (sjá skýringu á inngildingu í síðasta pistli hér) og enginn tekur heldur til áhrifa tæknibreytinga á líf okkar.   

Velsæld er ekki frekar en neitt annað meitluð í stein. Mælingar á velsæld þurfa að taka mið af samfélagsþróun, breyttum áskorunum og þá þurfa þær að vera tímanlegar. Það sem mestu máli skiptir er þó að velsældarmælingar séu nýttar við ákvarðanatöku því mælingar einar og sér eru tilgangslitlar ef þær eru ekki nýttar til framfara. Höldum samtalinu áfram, greinum og sköpum nýjar lausnir, nálganir og mælikvarða sem mæta þörfum nútíðar og framtíðar. 

Með þeim hætti sköpum við saman samfélag velsældar.  

 
 
Previous
Previous

Á mörkum hlutleysis

Next
Next

Frá áformum til árangurs