Frá áformum til árangurs
Að jafna tækifæri fólks, þátttöku og áhrif í samfélaginu er flókið, af því að á öllum stigum samfélagsins eru múrar, skekkjur og viðmið sem erfitt er að fást við. Vinna við jöfnun er því almennt marglaga og verkfærin, hugtökin og leiðirnar sem hafa verið þróaðar í gegnum tíðina margvíslegar og skilningurinn það líka.
Ein leið sem er talsvert mikið notuð í þessum efnum byggir á þremur hugtökum. Hugtökin eru fjölbreytileiki, jöfnuður og inngilding (gjarnan skammstöfuð DEI á ensku). Í þessari Kveikju er farið yfir hvað þau þýða hvert og eitt og hvað þau þýða saman.
Inngilding sem er þýðing á enska hugtakinu include, var lengi vel þekkt undir formerkjunum án aðgreiningar og þá sérstaklega í tengslum við skóla án aðgreiningar. Hugtakið hefur nú fengið aukinn hljómgrunn í tengslum við stöðu fólks af erlendum uppruna og innflytjendur og er í dag yfirleitt kynnt sem inngilding og má segja að sú þýðing hafi fest sig í sessi.
Af einhverjum ástæðum þá hefur umræðan á Íslandi verið á þann veg að inngildingin sé verkfærið sem eigi að nota til þess að koma á gagnkvæmri aðlögun, brjóta niður múra eða brúa brýr. Hugtakið eitt og sér nær þó ekki utan um það allt og það er ástæða fyrir því. Það er mikilvægt að tengja hugtakið með beinum hætti við fjölbreytileikann og jöfnuðinn. Því hugtökin saman fela það í sér að tekið er mið af fjölbreytileika, fólki er boðið til þátttöku, samhliða því að tekið er mið af undirliggjandi mismunun. Öll þessi skref fela í sér margvíslega vinnu sem gerist ekki af sjálfu sér og þessi vinna er stöðug. Það er því mikilvægt að skilja hugtökin bæði hvert fyrir sig og saman. Með inngildingunni einni og sér erum við því bara með góð og falleg áform sem skila ekki endilega þeim árangri sem lagt er upp með eins og við þekkjum ágætlega í tengslum við skóla án aðgreiningar nema að jafnframt sé tryggð jöfnun sem tekur mið af fjölbreytileika fólks.
Fjölbreytileiki - Jöfnun - Inngilding (DEI)
Fjölbreytileiki (e. Diversity) er staðreynd. Íslenskt samfélag, með tæplega 400 þúsund einstaklinga, endurspeglar þessa fjölbreytni. Hér á landi býr fólk með ólíkan bakgrunn, uppruna, kyn, aldur og færni, svo fátt eitt sé nefnt. Um 80 þúsund íbúa eru fædd utan Íslands og koma samanlagt frá 188 löndum. Oft hefur jafnréttisstarf eingöngu snúist um að telja fjölbreytileikann og þá sérstaklega kynin. Þetta er takmarkað og oft skaðlegt sjónarhorn sem þarf að skoða í samhengi við áhrif og stöðu. Fjölbreytilegur hópur á vinnustað, í stjórnum fyrirtækja eða í íþróttastarfi tryggir ekki jafna þátttöku og jöfn áhrif. Til þess þarf í fyrsta lagi að mæta ólíkum þörfum fólks og skapa umhverfi þar sem fjölbreytt fólk getur tekið þátt, lagt sitt af mörkum og tilheyrt.
Jöfnun / jöfnuður (e. Equity) er ákvörðun um að ná jafnri útkomu. Jöfnuður felur í sér að samhliða því að opna fyrir þátttöku ólíkra hópa, eins og gert er með skóla án aðgreiningar (inngilding), er horft til grundvallarþátta í samfélagsgerðinni sem geta legið að baki mismunun. Hér er viðurkennt að ólíkar þarfir fjölbreytts fólks þurfa að vera teknar til greina til að ná jöfnum árangri og jafnri stöðu. Í íþróttastarfi sveitarfélaga gæti jöfnuður þýtt að börn sem koma úr stríðsaðstæðum fái aukatíma og stuðning til að ná jöfnum árangri á við önnur börn. Í því er fólgin viðurkenning á því að staða þeirra er önnur. Á vinnustöðum gæti jöfnuður falið í sér sveigjanleika varðandi vinnutíma og aðlögun á vinnuaðstæðum fyrir fólk með ólíkar þarfir. Það er mikilvægt að eiga samtal, skilja stöðu og þarfir fólks sem stendur utan normsins, til að veita réttan stuðning og jafna leikana.
Inngilding (e. Inclusion) er verkefni sem felst í því að skapa umhverfi þar sem fjölbreytt fólk er samþykkt og getur tekið þátt án aðgreiningar. Þetta felur í sér að fólk með ólíkan bakgrunn, uppruna og stöðu geti tekið virkan þátt án hindrana. Enska orðið include fangar þetta vel – að bjóða fólki að taka þátt og gera ráð fyrir því. Þetta snýst ekki bara um umburðarlyndi heldur um viðurkenningu á fjölbreytileika, þar sem öll eiga að geta tekið fullan þátt í samfélaginu, lagt sitt af mörkum og dafnað. Dæmi um inngildingu er breytt orðalag í ráðningum til að laða að fjölbreyttari hópa að, skólastarf án aðgreiningar og bætt aðgengi að byggingum. Til þess að inngilding takist þarf að gera ráð fyrir fjölbreytileika og tryggja jöfnuð á milli fjölbreytts hóps fólks með ólíkar þarfir.
Að tilheyra (e. belonging) er tilfinning sem kemur þegar fjölbreytileiki, jöfnuður og inngilding vinna saman. Þá finnur fólk sig tilheyra og getur þroskast í því umhverfi sem það er í. Að tilheyra eykur vellíðan, frammistöðu, traust og samstarf innan teyma.
Til að ná jöfnuði og inngildingu þarf að skilgreina árangurinn áður en leiðir eru valdar. Eitt hugtak fangar ekki allt ferlið. Við þurfum að fjalla um og beita inngildingu í samhengi við jöfnuð og byggja á upplýsingum um fjölbreytileika. Þannig komumst við að kjarnanum.
Að tilheyra eins og við erum.