Það margborgar sig að vera samfélagslega frábær 

Betra samfélag og aukin ávöxtun 

Flestum þykir sjálfsagt að leggja sitt af mörkum til samfélagsins. Kannanir hafa sýnt að Íslendingum finnst öflugt velferðarkerfi, umhverfismál og traust stjórnun skipta hvað mestu máli þegar kemur að samfélagsgerð, og erum við langt í frá að vera ein um þá forgangsröðun. Þrátt fyrir samhljóm um þær áherslur hefur lengi verið litið til þess að önnur lögmál gildi um fjárfestingar. Þar sé hámörkun hagnaðar og  ávöxtun eigenda það eina sem máli skiptir. Það sé ekki hlutverk fyrirtækja eða fagfjárfesta að huga að samfélagsmálum heldur sé það hlutverk hins opinbera og einstaklinga. Málflutningur sem þessi er sem betur fer á undanhaldi. Við erum eitt samfélag og við þurfum öll að róa árum að því að framtíðin verði trygg og björt. 

Það er ekki aðeins siðferðislega rétt að huga að sjálfbærum þáttum heldur er það einnig arðbært. Rannsóknir sýna að þau fyrirtæki sem líta til umhverfismála, félagslegra þátta auk ábyrgra stjórnarhátta (UFS) í sinni starfsemi eru arðsamari en þau fyrirtæki sem gera það ekki. Það er ákveðin áhættustýring fólgin í því að taka tillit til þessara þátta og ekki minnkar sú þörf með auknum alþjóðlegum skuldbindingum í þessum efnum. MSCI (Morgan Stanley Capital Index) framkvæmdi nýverið rannsókn þar fjármagnskostnaður um 4.000 fyrirtækja  var greindur með tilliti til þess hversu vel þau fylgdu lykilstoðum sjálfbærni (UFS). Niðurstaðan var ótvírætt sú að fyrirtæki sem tóku tillit til UFS þátta báru að jafnaði lægri fjármagnskostnað. 

Þegar fjallað er um UFS er félagslegu þáttunum (F-ið í UFS) stundum líkt við vanrækta miðjubarnið á meðan mikilvægi umhverfisþátta og stjórnunar er óumdeilt. Önnur rannsókn MSCI kannaði einungis áhrif félagslegu þáttanna á hlutabréfaverð og sýna niðurstöður að þau fyrirtæki sem standa sig vel í félagslega hluta sjálfbærni vegnar betur á markaði en sambærilegum fyrirtækjum sem sinna síður félagslegum þáttum. Niðurstöðurnar voru afgerandi og áttu við hvar sem borið var niður í heiminum. 

Það er mikilvægt að fyrirtæki sinni félagslegum þáttum í rekstri. Bæði er það siðferðislega rétt áhersla, því við viljum búa í samfélagi þar sem komið er vel fram við fólk, og þá vegnar fyrirtækjum betur í rekstri ef þau taka mið af þörfum samfélagsins. Það margborgar sig því að vera samfélagslega frábær. 

Við hjá Kveikju ætlum að fjalla um þetta og aðra áhugaverða þætti er varða samfélagslega sjálfbærni á veffundi með UN Global Compact í næstu viku. Endilega skráið ykkur og takið þátt í samtalinu 😊 

 
 

 

Previous
Previous

Framtíðarsýn eða framtíðardraumórar? 

Next
Next

Hinsegin Kveikja