Hinsegin Kveikja

Hápunktur hinsegin daga, sjálf gleðigangan var gengin núna á laugardaginn. Það er eins og veðrið hafi haldið í sér í sumar, bara fyrir þessi fallegu og mikilvægu hátíðarhöld.

Ljósið var yfir hinsegin samfélaginu.

Við sem sýnum lit

Stuðningurinn og samkenndin kemur raunar víðar að, en frá íslensku veðurfari. Við sem teljumst til bandafólks hinsegin fólks tökum líka undir, styðjum og mætum í gleðina. Það er tilfinningaþrungið og fallegt.  

Við setjum upp fána, veljum borða á miðlana okkar og mætum í göngu með poka í regnbogalit. Framlagið komið og við getum haldið glöð áfram með lífið okkar.  

Eins og sumarið sjálft þá mættum við. 

Búin að sýna lit. 

Að skreyta sig 

Þrátt fyrir erfiða sögu, mótlæti og jaðarsetningu hefur hinsegin samfélagið haldið baráttunni uppi með gleði, fegurð og litum. Sagan er raunar lituð af því að þau, verandi á skjön við hið viðtekna hafa í gegnum tíðina þurft að upphugsa leiðir til þess að berjast gegn mótlætinu. Mótlæti og andúð frá þeim sem þegar tilheyra.  

Gleðin hefur verið einkennandi og hún hefur hrifið fólk með. Að mæta hatri með ást. Sýna samstöðu. Hinsegin samfélagið lyfti samstöðunni á æðri stað á laugardaginn með því að setja ljós á aðra hópa sem eru jaðarsettir sem sýnir styrk samfélagsins og samkennd. Það er til eftirbreytni.  

Hinsegin samfélagið á bandafólk í okkur flestum. Sem betur fer. Við sem viljum styðja, þrátt fyrir að tilheyra ekki hinsegin samfélaginu höfum lagt okkur fram við að taka undir. Taka þátt í gleðinni og fagna ástinni, í öllu sínu formi og það gerðum við svo sannarlega á laugardaginn og í síðastliðinni viku allri.  

Einstaklingar og vinnustaðir kepptust við að sýna samstöðuna. Kökur voru skreyttar, fánar settir á hún og borðar færðir yfir forsíðumyndir samfélagsmiðla.  

Enn baráttunni er hvergi nærri lokið, eins og við höfum því miður ítrekað verið minnt á að undanförnu og ekki úr vegi að hugsa um forréttindin og jaðarsetninguna, hinseginleikann, söguna og stöðuna sem fólk sem tilheyrir ekki norminu býr við í dag. Að finna fyrir ógn. Raunverulega. Að þurfa að standa undir áreiti af hálfu fólks sem tilheyrir. Í sínum daglegu erindum, í vinnu, innan opinberra þjónustustofnana, í skólum, á heilbrigðisstofnunum og svo má áfram telja. 

Í bókinni“Reimagine Inclusion” fjallar höfundurinn Mita Mallick um oft á tíðum vanhugsaðar leiðir fólks sem fellur að norminu við að styðja baráttu fólksins sem fellur fyrir utan það. Fólkinu sem situr í samfélaginu sem var hannað ágætlega fyrir það og vill sýna stuðning. Það er skilvirkt í dag, hægt að gera þetta á hlaupum á milli funda. Án þess að gefa því nokkurn gaum.  

Það að flagga, mæta og setja upp borða á samfélagsmiðlum er mikilvægt. Enn það er mikilvægt að staldra við og velta vöngum yfir því, hvað við erum að gera og hvað við getum gert betur. 

Fyrir vinnustaði og stjórnendur sem hafa sýnt lit, flaggað og bakað kökur, þá er ekki úr vegi að fara í sjálfskoðun. Hvað má betur fara, í menningunni og þjónustunni?  

Það getur verið raunverulega sárt fyrir fólk sem tilheyrir hinsegin samfélaginu að vera hluti af vinnustað sem flaggar sýnilega í ágúst, en gerir lítið annað þess utan. Að kaupa vörur í skreyttar regnbogalitum af fyrirtæki sem hefur ekki staðið með samfélaginu í raun.  

Beinum ljósinu í rétta átt 

Við þurfum öll að vera virk sem þátttakendur og raunverulegt stuðningsfólk. Það getur falist í því að stoppa neikvætt umtal með skjálfandi röddu á kaffistofunni. Hvetja fólk til að lesa og fræðast. Styðja fólk þegar það sér ekki til. Teygja sig eftir þekkingu og innsýn.  

Sýna lit og flagga, alltaf.  

Tökum undir með íslenska veðurfarinu og setjum ljósgeislana á hinsegin samfélagið, ekki okkur sjálf. 

Previous
Previous

Það margborgar sig að vera samfélagslega frábær 

Next
Next

Sjálfbær þróun í íslensku atvinnulífi