Framtíðarsýn eða framtíðardraumórar? 

Framtíðarráðstefna var haldin fyrr í vikunni á vegum Sameinuðu þjóðanna (SÞ) í New York. Þar komu leiðtogar flestra landa heims saman í þeim tilgangi að bæta traust í alþjóðasamskiptum og festa innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna betur í sessi. Erindið er brýnt því samkvæmt SÞ stefnir í  að einungis 17% af heimsmarkmiðum SÞ nái settu marki fyrir lok áætlunartímans árið 2030. 

Er þetta ekki bara komið hjá okkur? 

Sáttmáli um framtíðina sem samþykktur var á ráðstefnunni fjallar um flest meginatriði heimsmarkmiða SÞ líkt og réttlát umskipti, útrýmingu fátæktar, jafnrétti kynjanna og frið, sem þurfa öll að raungerast til að tryggja megi sjálfbæra framtíð. Sum þeirra virðast okkur sem búum í tiltölulega friðsælu landi sjálfgefin. Sagan segir okkur þó að ekkert er gefið í þeim efnum og aðstæður geta breyst hratt. Dæmi um slíkt má sjá í umfjöllun með meðfylgjandi myndum af afgönskum konum árið 1962 annars vegar og 2024 hins vegar. Þó að réttindi afganskra kvenna hafi aldrei verið fest jafn vel í sessi og réttindi kvenna á Íslandi nútímans er sláandi að sjá hversu auðvelt virðist að hrifsa grunnréttindi af fólki. Þetta öfgafulla dæmi sýnir að við getum ekki tekið réttláta og friðsæla samfélagsgerð sem gefna. Við þurfum stöðugt að vinna að því að viðhalda réttindum og vinna gegn mismunun og misskiptingu til þess að varðveita það samfélag sem við viljum búa í og þau sjónarmið sem við viljum standa fyrir. 

 

 

Afganskar konur árið 1962 og 2024

 

 Gerum betur 

Heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun hverfast um umhverfis-, félagslega- og hagræna þætti. Alþjóðasamvinna og friður tvinna þættina saman. Líkt og fjallað hefur verið um í fyrri Kveikjum, verða félagslegu þættirnir gjarnan útundan þegar rætt er um sjálfbærni þar sem við tökum þeim sem gefnum og erfitt getur reynst að hlutgera þá. 

Í framtíðarsáttmálanum er umtalsvert fjallað um jafnrétti, inngildingu, fordóma, minni misskiptingu og fleiri þætti sem snerta samfélagslegan hluta sjálfbærni, sem  við eigum á hættu að líta framhjá, þar sem  við teljum að hér sé allt til fyrirmyndar. Ítrekað er lögð áhersla á að kynjajafnrétti og valdefling kvenna sé grunnforsenda sjálfbærrar þróunar. Þessi sterka afstaða er svar við ákalli vegna núverandi  stöðu, þar sem útlit er fyrir að ekkert þeirra markmiða sem sett voru um kynjajafnrétti náist að óbreyttu fyrir árið 2030. Í ljósi mikillar umræðu um umönnunarskyldu og leikskóla hérlendis er áhugavert að líta til þess að það jafnréttismarkmið sem Ísland stendur sig verst í er að viðurkenna og meta launuð umönnunar- og heimilisstörf og að tryggja fullnægjandi opinbera þjónustu á sviði félagslegrar verndar. Í sáttmálanum eru tengsl kynjamisréttis og fátæktar staðfest og tilgreindar aðgerðir að aukinni fjárfestingu meðal annars í umönnunar- og stuðningsumhverfi. Innlendar rannsóknir sýna að tekjulægri konur bera þyngra byrði vegna umönnunar barna og heimilis og eru að jafnaði með minna félagslegt bakland. Að skerða þjónustu til þessara kvenna mun því að óbreyttu viðhalda og mögulega auka fáttækt. 

Þó að yfirlýsingar líkt og framtíðarsáttmálinn virðast stundum háfleygar og eiga meira við um fátækari ríki með veikari innviði er mikilvægt að líta sér nær og spegla okkur sjálf í þeim sjónarmiðum og kröfum sem við tölum fyrir. Þegar betur er að gáð getum við oft gert betur á flestum sviðum og unnið markvissar að því markmiði að skilja engan eftir.  

Previous
Previous

Frá feluleik til ábyrgra framfara

Next
Next

Það margborgar sig að vera samfélagslega frábær