Frá ryksugum til réttlætis

Áhrifum þeirra tæknibreytinga, sem nú eiga sér stað hefur verið lýst með orðinu uppbroti (e. disruption). Uppbrot þýðir mikil breyting samkvæmt íslenskri nútímaorðabók og vísar í þessu samhengi til tækni sem kollvarpar eða breytir hefðbundnum atvinnugreinum, samfélagsgerð og viðskiptaháttum á marktækan hátt.

Í yfirstandandi breytingum er ófyrirsjáanleikinn nánast algjör. Líkja má stöðunni við það að þvera á, þar sem við höfum nú þegar tekið nokkur skref út í, án þess að vita hversu djúp eða breið áin er. Það er því erfitt að leggja mat á það hversu löng eða krefjandi yfirferðin verður, hvort við komumst alla leið og hvað þá hvernig aðstæður á bakkanum hinum megin eru. 

Í síðustu Kveikju var fjallað um áskoranir við þróun gervigreindar og hættuna á aukinni misskiptingu.

Að þessu sinni verður fjallað um þau margvíslegu tækifæri sem eru fólgin í því að nýta þennan tíma breytinga til að jafna stöðu fólks á ólíkum sviðum samfélagsins. 

Tæknin sem tók til

Í gegnum söguna hafa komið ýmis tímabil sem hægt er að kenna við uppbrot. Samhliða jákvæðum breytingum hafa þau oft leitt til aukinnar misskiptingar til lengri eða skemmri tíma. Fyrstu iðnbyltingunni fylgdu til að mynda gríðarlegar samfélagslegar breytingar, þar sem tækniframfarir stuðluðu að aukinni framleiðni en juku jafnframt efnahagslega og félagslega misskiptingu. Fólk fluttist úr sveitum í borgir og þar beið þeirra gjarnan láglaunuð verksmiðjuvinna með hættulegum vinnuskilyrðum og verri lífskjörum. Þessar aðstæður undirstrika mikilvægi þess að huga að félagslegum áhrifum tækninýjunga samhliða uppbroti, en ekki eftir á. 

Áhrif nýjunga geta jafnað stöðu fólks og er þar skemmst að segja frá þróun heimilistækja eins og ísskápsins og þvottavélarinnar sem átti sér stað eftir seinni heimsstyrjöldina þegar fleiri konur vildu halda áfram að vinna utan heimilis eftir stríð. Þá þurfti meðal annars að finna leiðir til að draga úr tíma og fyrirhöfn sem fór í heimilisstörf og með tilkomu aukinnar raforkuframleiðslu urðu raunverulegir möguleikar á að búa til tæki sem þessi. Markaðsöfl hoppuðu á vagninn með hvatningu til fólks að gera heimilið skilvirkara og þægilegra. Á bakvið þessa þróun voru því bæði efnahagslegir og samfélagslegir hvatar sem hafa haft varanleg og djúpstæð áhrif á samfélagsgerðina og þá sér í lagi á stöðu kvenna sem í ljósi vinnusparnaðar heima fyrir gátu í auknum mæli sótt vinnu utan heimilis. Þetta sýnir okkur að tækninýjungar geta jafnað tækifæri ef rétt er á spöðunum haldið. 

Tækni sem jafnar

Tæknibyltingunni í dag fylgja ófáar áskoranir eins og þegar hefur verið fjallað um, en tækifærin eru líka ótalmörg. Gervigreind getur spilað lykilhlutverk í að jafna tækifæri fólks sem aftur getur haft margvísleg áhrif á efnahagslegan og félagslegan vöxt samfélaga til framtíðar.

Dæmi um tækifæri í yfirstandandi tæknibreytingum:

  • Nám og fræðsla sniðin að ólíkum þörfum: Gervigreind getur hjálpað til við að gera einstaklingsmiðað nám að raunhæfum möguleika með því að innleiða fjölbreyttar lausnir fyrir börn og fólk með ólíkar þarfir. Tækifæri eru á því að þróa forrit sem geta aðlagað sig að ólíkum þörfum, eins og með því að breyta texta í tal, koma á ólíkri nálgun í miðlun á texta og þýða námsefni og annað efni því tengdu yfir á ólík tungumál. 

  • Bætt heilbrigðisþjónusta fyrir öll: Með gervigreind opnast möguleikar á að greina mynstur í gögnum og tengja saman heilbrigðisupplýsingar á stærri skala en áður hefur þekkst. Gagnagrunnar sem endurspegla fjölbreytileika ólíkra samfélaga og eru lausir við bjögun búa yfir gríðarlegum tækifærum til að greina sjúkdóma og heilbrigðisvandamál hjá fólki sem oft hefur verið jaðarsett í kerfinu. 

  • Aðgengi og sjálfstæði: Með sjálfvirkni, gervigreind og vélvæðingu eru tækifæri til að auka stuðning við fólk með skerta hreyfigetu og eldra fólk sem þarfnast stuðnings. Í því samhengi er nærtækt að líta til sjálfkeyrandi bíla og snjallvæðingar á heimilum. Þá eru tækifærin mörg varðandi snjallt aðgengi að svæðum og byggingum og persónulega aðstoð svo dæmi séu tekin.

Ekkert gerist af sjálfu sér  

Þetta eru aðeins örfá dæmi um möguleika núverandi tæknibreytinga til að jafna tækifæri fólks með forsjálni að leiðarljósi. Dæmin eiga það sammerkt að endurspegla veruleika og verkefni sem eru ekki fjarri því að raungerast. Niðurstaðan ræðst þó iðulega af því hvort og hvernig þessi tækifæri eru nýtt sem aftur er litað af ákvörðunum þeirra sem stýra og móta tæknina. 

En hvað með það sem við getum ekki ímyndað okkur út frá okkar takmarkaða reynsluheimi? Hvaða möguleika erum við ekki að sjá? 

Til þess að komast þangað þurfum við að staldra við, jafnvel þó við séum stödd í miðri á og huga að því hvernig við ætlum að komast áfram og hverju þetta ferðalag eigi að skila okkur. Viljum við byggja brú og auka möguleika allra á að komast yfir eða munum við marka leið fyrir hluta hópsins sem verður til þess að önnur verða eftir?

Með markvissum skrefum í átt að jöfnun og nýtingu tækninnar á inngildandi hátt, getum við nýtt kraftinn sem felst í tæknibyltingunni til umbreytinga yfir í samfélag jafnra tækifæra. 

Previous
Previous

Jafnrétti styrkir stoðir sjálfbærni 

Next
Next

Á mörkum hlutleysis