Jafnrétti styrkir stoðir sjálfbærni 

Sjálfbær þróun miðar að því að mæta þörfum núverandi kynslóða án þess að skerða möguleika framtíðarkynslóða.

Hún tryggir jafnvægi milli náttúruverndar, efnahagslegs vaxtar og samfélagslegs réttlætis, þannig að öll geti mætt þörfum sínum til framtíðar.

Sjálfbærnihugtakið stendur á þremur stoðum: umhverfi, samfélagi og efnahag. Þessar stoðir eru samverkandi, og mikilvægt er að efla þær allar samtímis. Atvinnulífið styðst gjarnan við afmarkaðari nálgun á sjálfbærni, sem gengur undir skammstöfuninni ESG á ensku (e. Environmental, Social and Governance) sem útleggst á íslensku; umhverfi, félagslega þættir og stjórnarhætti (UFS). ESG miðar að því að stuðla að ábyrgum rekstri sem tekur tillit til hagsmuna eigenda og samfélagsins í heild. Umhverfisþátturinn (E) miðar að því að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum, samfélagsþátturinn (S) leggur áherslu á samfélagslega ábyrgð og eiga stjórnarhættir (G) að tryggja siðferðislega og gagnsæja stjórnarhætti. Þannig tengist ESG sjálfbærnihugtakinu og styður við stoðirnar þrjár: umhverfi, samfélag og efnahag. 

Áður en hugtakið sjálfbærni kom til sögunnar var oft litið á það sem staðreynd, bæði af hinu opinbera og fyrirtækjum, að efnahagsstoðin væri ríkjandi. Ef árekstrar urðu milli hagrænna sjónarmiða og samfélags eða umhverfis, höfðu hagræn sjónarmið yfirhöndina. Aukin þekking og reynsla hefur hins vegar sýnt okkur að jafnvægi næst ekki með því að einblína einungis á afmarkaðan þátt. Sjálfbærni er jafnvægislist umhverfis, samfélags og efnahags. Allar þrjár stoðirnar þurfa að vera sterkar til að tryggja sjálfbæra þróun. 

Sjálfbærni krefst þess að við setjum okkur ný markmið og árangursmælikvarða og getur það reynst okkur, sem erum vön að ganga í fyrri fótspor erfitt. Þar að auki hafa reglur og viðmið varðandi sjálfbærni verið í þróun um nokkurt skeið og aðilar því haft nokkuð frjálsar hendur við val á áherslum í sjálfbærnivegferðinni. Markmið og mælikvarðar hafa því fremur beinst að því sem er áþreifanlegt og mögulegt að telja og mæla. Eitthvað sem er í sjónmáli. Árangursmælingar sem geta farið upp á við á skömmum tíma. 

Á undanförnum árum hafa ríki, sveitarfélög og fyrirtæki því frekar hallast að umhverfislegum og efnhagslegum stoðum sjálfbærni, þar sem mælikvarðar þessara þátta eru oft hlutlægir. 

Grænar og gullnar stoðir 

Umhverfisleg sjálfbærni snýr að varðveislu náttúruauðlinda og líffræðilegrar fjölbreytni. Að nýta náttúruauðlindir á þann hátt að þær verði til fyrir næstu kynslóðir. Þetta felur meðal annars í sér að draga úr mengun, styðja við endurnýjanlega orkugjafa og viðhalda vistkerfum.  

Markmiðin eru mælanleg og fela í sér hlutlæg viðmið og aðgerðir sem geta stutt þar við. Til dæmis er stefnt að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 55% fyrir árið 2030 miðað við losun árið 1990 og ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Það er meðal annars gert með því að bæta bindingu kolefnis í andrúmslofti, styrkja kolefnisbindingu í jarðvegi og skógi og draga úr losun í samgöngum með aukinni notkun rafbíla og annarra vistvænni orkugjafa. 

Efnahagsleg sjálfbærni snýst um að tryggja efnahagslegan stöðugleika til framtíðar. Þetta þýðir að hagkerfið þarf að vaxa á stöðugan og heilbrigðan hátt, með tilliti til umhverfis- og samfélagslegra sjónarmiða. Í því felst að bæta velsæld og lífsgæði fólks á meðan dregið er úr ójöfnuði. Dæmi um mælanlegt markmið er takmörkun skuldsetningar ríkissjóðs og aukin fjármögnun sjálfbærra verkefna.  

Það er orðin viðtekin venja hérlendis að fyrirtæki og fjárfestar líti til umhverfisþátta sem hluta af sjálfbærnivegferð sinni. Síður hefur borið á því að sjónum sé beint að félagslega þættinum. Athygli vakti þegar íslenska ríkið gaf út fyrstu kynjuðu skuldabréfin, sem þóttu mun meiri tíðindi en útgáfa svokallaðra grænna skuldabréfa. Í þessu samhengi má líta til alþjóðlegra rannsókna sem hafa sýnt fram á aukna arðsemi fyrirtækja sem innleiða ESG þætti með kerfisbundnum og trúverðugum hætti í starfsemi sína. Kynjuð skuldabréf falla vissulega undir hatt ábyrgra fjárfestinga sem hafa sannað sig sem mjög fýsilegur fjárfestinga- og fjármögnunarkostur. Þrátt fyrir að hingað til hafi umhverfisstoðin verið í forgrunni efnahagslegrar sjálfbærni hér á landi, er nauðsynlegt að efla samfélagsstoðina, því þrjár styrkar stoðir eru lykillinn að sjálfbærri þróun. 

Týnda (S)toðin 

Samfélagsleg sjálfbærni snýst meðal annars um að stjórna áhrifum fyrirtækja og stofnana á fólk og samfélög og tekur til mannréttinda, vinnu, heilsu, öryggis, fjölbreytileika og jafnréttis. 

Líkt og fram hefur komið hafa fyrirtæki og stofnanir lagt ríkari áherslu á efnahag og umhverfi í tengslum við sjálfbærni, á meðan vinna við samfélagslega þáttinn hefur verið handahófskenndari. Nú eru hins vegar að koma fram ríkari alþjóðlegar kröfur sem kalla eftir faglegum og vel skilgreindum vinnubrögðum, sérstaklega í tengslum við samfélagslegu stoðina sem hefur stundum verið kölluð týnda S-ið í sjálfbærni. 

Má þar nefna ný reglugerðarviðmið innan Evrópusambandsins, CSRD (Corporate Sustainability Reporting Directive), sem taka til upplýsinga um stöðu sjálfbærni fyrirtækja, og CSDDD (Corporate Sustainability Due Diligence Directive), sem miðar að því að fyrirtæki framkvæmi áreiðanleikakannanir til að tryggja að starfsemi þeirra og virðiskeðja fylgi sjálfbærni- og mannréttindaviðmiðum. Samkvæmt viðmiðum þessara reglugerða þurfa ákveðin fyrirtæki að upplýsa um stöðu mannréttinda og launþegasambands, vinnuaðstæðna og samfélagsáhrifa. CSRD krefst gagnsæis í skýrslugjöf fyrirtækja um samfélagslega ábyrgð og upplýsinga um hvernig fyrirtæki stuðla að jöfnuði og vellíðan starfsfólks.

Til að auka áherslu á samfélagslega þætti í sjálfbærni þurfa fyrirtæki og stofnanir að þróa nýja mælikvarða og innleiða viðeigandi viðmið í samráði við sérfræðinga. Annars er hætta á að verið sé að mæla þætti sem litlu skipta. 

Fjöldi mælikvarða er þegar til, en þá þarf engu að síður að setja í félagslegt samhengi og tengja hlutlæg viðmið við félagslega stöðu. Markmið um velferð starfsfólks, launamun, hlutfall kynja, fjölbreytileika á ólíkum sviðum og starfsánægju þarf að undirbyggja með hlutlægum og huglægum mælikvörðum. Það er ekki nóg að gefa einungis upp eina tölu. Tölunni þarf að fylgja eitthvað samhengi. Það sama á við um samfélagsleg áhrif, þjónustu, stjórnun, heilbrigði, vellíðan, fjárhagslegt og félagslegt öryggi og mat á samfélagslegum áhrifum í virðiskeðju. Þetta eru lykilþættir samfélagslegu stoðarinnar og ef við náum ekki að skilgreina viðeigandi mælikvarða og ná raunverulegum árangri þar, er til lítils að tala um sjálfbærni.  

Styrkari stoðir 

Vinna við samfélagslega sjálfbærni byggir á félagslegu samhengi og jafnréttissjónarmiðum sem kristallast í nýjum alþjóðlegum viðmiðum. Þar skiptir máli að þróa viðeigandi markmið og mælikvarða sem byggja bæði á hlutlægum og huglægum viðmiðum. 

Það er tímabært að horfa á heildarmyndina og tryggja að allir þættir sjálfbærni verði teknir með í reikninginn. Styrkjum allar stoðir samtímis svo að þær haldi og styðji okkur til framtíðar. 

Previous
Previous

Sjálfbær þróun í íslensku atvinnulífi

Next
Next

Frá ryksugum til réttlætis