Frá feluleik til ábyrgra framfara
Frá rörsýni yfir í heildræna nálgun
Fræðafólki hefur löngum greint á um það hvernig eigi að stýra markaðinum. Á einum enda var krafa um regluverk og á öðrum um frelsi. Með tímanum og eftir því sem við höfum fengið að finna meira fyrir áhrifum markaðarins á samfélög, einstaklinga og umhverfið, er flestum ljóst að fyrirtæki verða að spila eftir ákveðnum leikreglum og taka fleiri þætti inn í reikninginn en fjárhagslegan gróða, framboð og eftirspurn.
Stórfyrirtækið Boeing hefur líkt og fjölmörg önnur fyrirtæki fallið í þá gryfju að horfa til eigin hagsmuna til skamms tíma, á kostnað viðeigandi öryggisviðmiða og sjálfbærs vaxtar til framtíðar. Þrýstingur á skilvirkni og hagkvæmni ofar öðru. Millistjórnendur fengu það hlutverk að halda kostnaði í lágmarki og leiddu hjá sér viðvaranir starfsfólks varðandi öryggismál, enda í þeim ósk um skammtíma kostnaðarauka. Það er skemmst frá því að segja að þessi rörsýni á árangur reyndist félaginu fjárhagslega óhagkvæm til lengri tíma litið. Öllu skelfilegri eru samt afleiðingarnar gagnvart starfsfólki, samfélaginu og þeim sem treystu á þjónustu félagsins. Flestum eru enn í fersku minni slys vegna Max 737-vélanna í tvígang fyrir um fimm árum þegar tugir létu lífið. Viðbrögð eigenda fyrirtækisins á þeim tíma ollu miklum vonbrigðum. Ábyrgð var ekki tekin á göllum í sjálfvirku stýrikerfi (MCAS) og skorti á þjálfun flugmanna. Þess í stað reyndu eigendur að varpa sök á aðra og sópa málinu undir teppið.
Þrýstingur aðstandenda þeirra sem hafa látist, almennings og sér í lagi fyrrum starfsfólks félagsins hafa þó skilað miklu. Fyrirtækið var dregið til formlegrar ábyrgðar fyrir að hafa blekkt flugmálayfirvöld um galla í flugstjórnarkerfinu. Það samdi um greiðslu sektar og sætti þriggja ára eftirliti sem átti að þrýsta á bætt vinnubrögð og skýrslugerð af hálfu félagsins. Þrátt fyrir þetta héldu öryggisbrestir áfram að líta dagsins ljós, og var félagið til umfjöllunar, meðal annars þegar hurð í vél Alaska Airlines losnaði í miðju flugi í janúar 2024. Nýleg endurskoðun leiddi í ljós að Boeing hafði brotið gegn samkomulaginu um bætt öryggi og var því gert að mæta fyrir rétt. Fyrirtækið komst þó hjá réttarhöldum með því að greiða aðra sekt og lofa úrbótum.
Ábyrgð Boeing er vissulega mikil ef litið er til umfangs og starfsemi fyrirtækisins, þar sem öryggi farþega og starfsfólks verður að vera í fyrirrúmi. Því er þeim mun brýnna að félagið vinni á heildrænan hátt að áherslum, þar sem öryggismál, aðbúnaður og heilsa fólks eru tekin alvarlega, auk annarra mikilvægra þátta. Það verður áhugavert að fylgjast með því hvort félaginu takist að starfa af meiri heilindum í framtíðinni. Tíminn mun einn leiða það í ljós.
Sjálfbær skylda
Sem betur fer er nú þrýst á um breytta viðskiptahætti og aukna sjálfbærni fyrirtækja. Þrýstingur frá almenningi, fjölmiðlum og starfsfólki tiltekinna fyrirtækja nægir þó ekki, eins og dæmið hér að ofan sýnir. Fyrirtæki sem eru í stakk búin til að borga sig frá raunverulegri ábyrgð, þurfa skýrari ramma. Við þurfum nýjar leikreglur og viðmið, svo að fyrirtækjum, aðilum innan hins opinbera og félagasamtökum sé ábyrgð sín ljós. Við þurfum öll að vinna eftir sömu leikreglum.
Evrópusambandið (ESB) hefur tekið afgerandi skref með græna sáttmálanum svokallaða og þeim reglugerðum og tilskipunum sem honum tengjast. Það eru í fyrsta lagi reglugerð um upplýsingagjöf um sjálfbær fjármál (SFDR), í öðru lagi flokkunarreglugerðin (Taxanomy Regulation), í þriðja lagi tilskipun um sjálfbæra fyrirtækjaskýrslugerð (CSRD) og í fjórða lagi tilskipun um áreiðanleikakönnun á sjálfbærni fyrirtækja (CS3D).
Til stuðnings við fyrirtæki og til að skapa betri ramma hafa verið þróaðir staðlar með viðmiðum um það hvernig greina eigi frá umhverfislegum, félagslegum og stjórnunar þáttum (ESG). Staðlarnir hafa fengið skammstöfunina ESRS (European Sustainability Reporting Standards) og eru ætlað að efla gagnsæi og stöðlun upplýsinga um sjálfbærni. Með stöðlunum eru komin viðmið sem fyrirtæki þurfa að fylgja þegar kemur að ábyrgð á starfsfólki, virðiskeðju fyrirtækisins, starfsfólki innan þeirrar virðiskeðju, áhrifum á nærsamfélag fyrirtækisins og síðast en ekki síst, áhrifum á notendur þeirrar þjónustu sem fyrirtækið veitir.
Vonir standa til að staðlarnir marki tímamót í leikreglum um samræmda viðskiptahætti fyrirtækja.
Sýnum spilin
Sagan um Boeing er bæði nálæg og sorgleg áminning um þá hættu sem fylgir því að leggja of mikla áherslu á fjárhagslegan skammtímagróða. Kröfur um heilsu og öryggi starfsfólks, neytenda, ásamt áhrifum á staðbundin samfélög, þurfa að vera órjúfanlegur hluti af áætlunum og áherslum fyrirtækja. Sjálfbær stefnumótun, sem samþættir samfélags- og umhverfisábyrgð við fjárhagsleg markmið, er nauðsynleg fyrir þau fyrirtæki sem ætla að ná langtímaárangri.
Tækifærin sem opnast fyrirtækjum sem leggja sig fram við að gera vel af heilindum eru margvísleg. Fyrir utan aukið gagnsæi og aukið traust starfsfólks, nærsamfélagins, mögulegra fjárfesta og notenda þjónustunnar þá ættu slík fyrirtæki að vera betur í stakk búin að mæta framtíðaráskorunum.
Fyrirtæki verða að hafa hugrekki til að horfast í augu við veikleika sína, vinna úr þeim og ganga inn í storminn.
Enginn rekstur er fullkominn og margt sem stjórnendur þurfa að horfast í augu við og varpa ljósi á.
Það á ekki að fela sprungurnar.
Í gegnum þær getur ljósið fundið sína leið.
Heimildir:
CNN. "Boeing Whistleblower Set to Testify as CEO Calhoun Defends Company Amid Safety Concerns." CNN Business. June 18, 2024. Sótt 08.10.2024 af: https://edition.cnn.com/2024/06/18/business/boeing-whistleblower-calhoun-testimony/index.html.
The Washington Post. "Boeing Whistleblower’s Death Compounds Scrutiny of Plane Manufacturer’s Safety Issues." The Washington Post. March 12, 2024. https://www.washingtonpost.com/business/2024/03/12/boeing-whistleblower-death-plane-issues/.
MSNBC. "Boeing’s Senate Hearings Show How Capitalism Turns Workers into Whistleblowers." MSNBC Opinion. September 14, 2023. https://www.msnbc.com/opinion/msnbc-opinion/boeing-senate-hearings-capitalism-whistleblower-rcna147892.
Highberg. "Boeing: The Role of Corporate Culture in Recent Setbacks." Highberg, August 31, 2023. https://highberg.com/insights/boeing-the-role-of-corporate-culture-in-recent-setbacks.