Jafnvægislistin í mælingunum

Við höfum áður fjallað um mikilvægi þess að skilja hugtökin fjölbreytileiki (e. diversity), jöfnun (e. equity) og inngilding (e. inclusion) í sitthvoru lagi og saman.

Þessi hugtök eru grunnstoðir í baráttunni fyrir jöfnun á vinnustöðum, í þjónustu og raunar í samfélaginu öllu.

Þegar við snúum okkur að mælingum á fjölbreytileika, jöfnuði og inngildingu þarf að horfa bæði á hlutlæga og huglæga mælikvarða.

  • Hlutlægir mælikvarðar eru til að mynda tölur eins og kynjahlutföll, aldursdreifing eða hlutfall fólks af erlendum uppruna. Slíkar tölur veita mikilvægar upplýsingar. Þær eru föst stærð sem auðvelt er að fylgjast með og bera saman yfir tíma. Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvort við getum hreyft við þeim með tilteknum markmiðum og aðgerðum. En það er flókið og erfitt að vita það með vissu, enda eru oft margar ástæður sem liggja að baki hverri einustu tölu, og því brýnt að fá sögur, skýringar og samhengi.

  • Huglægar mælingar, svo sem kannanir á upplifun starfsfólks af stjórnendum, menningu og þjónustu fylla í eyðurnar. Þær varpa ljósi á þætti eins og hversu vel fólk upplifir sig tilheyra, hvernig það skynjar tækifæri sín til að þroskast í starfi og hvort það mæti hindrunum við að sækja sér þjónustu.  

Fyrirtæki gæti til að mynda náð kynjajafnvægi í stjórnendastöðum á hlutlægan hátt, en ef starfsfólk upplifir að ákveðnir hópar mæti hindrunum, þarf að kafa dýpra. Að sama skapi getur vinnustaður verið fjölbreyttur á pappír, en menningin getur verið með þeim hætti að mörg upplifa sig ekki tilheyra.

Huglæg gögn er vissulega hægt að draga fram á talnaform og við erum ákaflega gjörn á að gera það. Hins vegar er mikilvægt að gera það rétt og setja tölurnar í viðeigandi samhengi. Ef stjórnendur vilja til dæmis fylgjast með upplifun fólks af þjónustu og sjá tölulega framvindu, þá er mikilvægt að draga fram fleiri þætti en tölur og stig.  

Samþætting huglægra og hlutlægra mælikvarða gerir okkur kleift að sjá heildarmyndina. Hlutlægar tölur sýna okkur staðreyndir, á meðan huglægar mælingar draga fram hvernig þessi staða lítur út frá sjónarhóli þeirra sem starfa í umhverfinu eða sækja þar þjónustu. Þetta er eins konar jafnvægislist og þar þurfum við að sætta okkur við það að margt af því sem skiptir máli er ekki hægt að mæla eða draga fram í einni tölu.

Tölulegir mælikvarðar duga ekki til. Við verðum að skilja söguna og samhengið líka.

Next
Next

Frá feluleik til ábyrgra framfara