Sjálfbær þróun í íslensku atvinnulífi

Frá frösum til framfara

Sjálfbær þróun er eitt af mikilvægustu viðfangsefnum okkar tíma, en það er auðvelt að fallast hendur þegar við stöndum frammi fyrir fjölda hugtaka og viðmiða sem tengjast sjálfbærni, eins og Global Reporting Initiative (GRI) og Environmental, Social, and Governance (ESG).  

Virkni og vegvísar

Hvað sem því líður þá erum við rétt að hefja sjálfbærnivegferðina og því ekki úr vegi fyrir fyrirtæki sem vilja vera samkeppnishæf til framtíðar að fylgjast vel með þeim kröfum og viðmiðum sem þau þurfa að lúta.  

Með nýjum reglugerðum frá Evrópusambandinu (ESB), eins og Corporate Sustainability Reporting Directive (CSRD) og Corporate Sustainability Due Diligence Directive (CSDDD), eru kröfur um sjálfbærni á margan hátt skýrari en fyrri viðmið kveða á um. Þessar reglugerðir munu hafa víðtæk áhrif á íslenskt atvinnulíf. CSRD tekur við af núverandi tilskipun um ófjárhagslega skýrslugjöf (NFRD) og setur strangari kröfur um upplýsingagjöf fyrir stór, lítil og meðalstór fyrirtæki (SME) innan Evrópusambandsins og EES-svæðisins, þar á meðal á Íslandi. Með þessu er sleginn tónn um aukið gagnsæi og samanburðarhæfi upplýsinga um sjálfbærni milli fyrirtækja, sem mun gera fjárfestum og öðrum hagsmunaaðilum kleift að taka betur upplýstar ákvarðanir. 

Með CSDDD er sett sú krafa að fyrirtæki framkvæmi áreiðanleikakannanir til að bera kennsl á, koma í veg fyrir, draga úr og bregðast við neikvæðum áhrifum á mannréttindi og umhverfi.  Reglugerðin nær til stórra, lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Lögð er meiri áhersla á virkni og aðgerðir frekar en einungis skýrslugerð. Þetta felur í sér að virðiskeðjan er skoðuð frá upphafi til enda, sem mun leiða til þess að fjölmörg íslensk fyrirtæki sem eiga í viðskiptasambandi á evrópskum markaði þurfa nú að undirbúa sig sem hluti af virðiskeðju. Þau þurfa að geta veitt nauðsynlegar upplýsingar og brugðist við ófullnægjandi þáttum en eiga annars á hættu að glata viðskiptum og viðskiptatækifærum. 

Vísir að viðmiðum

Þrátt fyrir að þessi nýju viðmið og skilyrði virðist yfirþyrmandi, er mikilvægt að fyrirtæki átti sig á þeim tækifærum sem þeim fylgja. Með söfnun og greiningu upplýsinga fylgja margvísleg tækifæri til þess að sjá mögulegar áhættur í rekstri út frá ólíkum víddum og bregðast við með fyrirbyggjandi hætti. Fjöldi rannsókna sýna fram á aukna arðsemi fyrirtækja sem taka sjálfbærni föstum tökum og fylgja viðurkenndum viðmiðum. Sjálfbærni snýst ekki um að ná fullkomnun heldur um sjálfbærar framfarir og samtakamátt. Fyrirtæki þurfa að einblína á þætti sem skipta mestu máli fyrir þau og samfélagið sem þau starfa í. Þess vegna skiptir máli að þau setji sér sína sjálfbærnistefnu til þess að vera betur í stakk búin þegar kemur að því að uppfylla kröfur viðskiptavina og annarra hagsmunaaðila, sem krefjast nú aukins gagnsæis og ábyrgðar. 

Fyrir íslensk fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði er mikilvægi þessara nýju reglugerða ótvírætt. Fyrirtæki sem ekki uppfylla kröfurnar eiga á hættu að missa samkeppnisforskot sitt og traust viðskiptavina. Íslensk fyrirtæki þurfa að skoða virðiskeðju sína frá upphafi til enda til að tryggja að þau fylgi nýjum viðmiðum um samfélagslega ábyrgð. Þetta felur í sér að greina og meta alla þætti sem hafa áhrif á samfélagslegan stöðugleika, svo sem vinnuaðstæður og launajafnrétti. Þróun nýrra mælikvarða fyrir samfélagslega sjálfbærni er lykilatriði fyrir framtíðarvöxt og velgengni fyrirtækja.  

Veljum veginn  

Það er engin ein rétt leið til að ná samfélagslegri sjálfbærni, en með því að skilja helstu viðmið og velja markvisst hvaða þætti við viljum leggja áherslu á, erum við að færa okkur áfram.  

Sjálfbærnivegferðin er ekki keppni um að vera best, heldur að gera það besta sem við getum fyrir okkur sjálf, samfélagið og umhverfið okkar. 

Með réttri nálgun og góðri stefnu getum við lagt okkar af mörkum til þess að vera aðeins betri saman.  

 

 

 

 

Previous
Previous

Hinsegin Kveikja

Next
Next

Jafnrétti styrkir stoðir sjálfbærni